„Þetta er algjörlega gjörbreytt aðstaða“

Fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi var formlega opnuð eftir gagngerar endurbætur síðastliðinn föstudag. Aðstaðan á deildinni er gjörbreytt.

„Við erum ofsalega ánægðar með þetta. Þó að við séum ekki að fá stærra rými þá er allt hér inni endurskipulagt og endurnýjað og það breytir heilmiklu fyrir okkur sem vinnum hérna, og einnig fyrir þær fjölskyldur sem nota sér þjónustuna hérna. Þetta er algjörlega gjörbreytt aðstaða,“ sagði Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir, í samtali við sunnlenska.is.

Aðstaða deildarinnar hefur verið endurskipulögð og nánast allt innanstokks endurnýjað. Vinnuaðstaða ljósmæðra er einnig gjörbreytt og til mikilla bóta fyrir þær og skjólstæðinga deildarinnar. Þar má til dæmis nefna að útbúin hefur verið glæsileg fjölskyldusvíta með stóru fjölskyldurúmi þar sem allir geta hvílst saman.

Til að þess að þessar breytingar allar gætu orðið að veruleika hafa fjölmörg félagasamtök og fyrirtæki lagt hönd á plóg og var þeim þakkað sérstaklega við opnunina. Að öðrum ólöstuðum hefur Samband sunnlenskra kvenna verið öflugasti bakhjarl fæðingardeildarinnar og gefið deildinni margskonar búnað og tæki á síðustu áratugum. Auk þess hefur SSK í gegnum árin fært öllum nýjum Sunnlendingum handprjónaðan fatnað að gjöf.

Aðrir sem fengu þakkir fyrir gjafir við opnunina voru Kvenfélag Selfoss, Kjörís, Rebekkustúkan Þóra á Selfossi, Byko, Lindex, Fagform og Almar bakari.
Elínborg Sigurðardóttir, formaður SSK, sá svo um að opna deildina formlega með því að klippa á sérhannaðan naflastreng úr þæfðri ull. Elínborg sagðist klippa á strenginn í nafni móður sinnar, ljósmóðurinnar Dýrfinnu Sigurjónsdóttur, fálkaorðuhafa og heiðursfélaga í Ljósmæðrafélagi Íslands.
Fyrri greinHamar og Þór áfram í bikarnum – FSu úr leik
Næsta greinSkínandi húfur í þúsunda vís