Þefaði uppi kannabis í púströri

Tvær bæjarhátíðir voru haldnar í umdæminu lögreglunnar á Suðurlandi um helgina.

Á Höfn var Humarhátíðin og Kótilettan á Selfossi. Þær fóru vel fram og gestir skemmtu sér vel í góðu veðri.

Á Selfossi var tilkynnt um 13 minni háttar þjófnaði. Einn einstaklingur tengdist nokkrum þeirra. Hann hafði hnuplað varningi í verslunum og stolið munum í íbúðarhúsum. Lögreglumenn lögðust í talsverða vinnu til að finna þjófinn og uppskáru að lokum, af útsjónarsemi og elju, með því að upplýsa flesta þjófnaðina.

Á Selfossi komu upp fimm fíkniefnamál. Fíkniefnahundurinn Vinkill á Litla Hrauni og þjálfari hans voru að störfum fyrir lögreglu og fóru um tjaldsvæði á Selfossi og utan við skemmtistaði. Í fjórum tilvika merkti Vinkill efni. Kannabisefni sem bíleigandi hafði falið í púströri bíls síns fór ekki framhjá Vinkli. Þefvísi hundsins reyndist óskeikul.

Í vikunni voru 57 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur. Eins og jafnan áður eru það erlendir ferðamenn sem eru með hæstu hraðatölurnar á Suðurlandsvegi sitt hvoru megin við Kirkjubæjarklaustur. Þrír ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur og tveir fyrir fíkniefnaakstur.

Fyrri greinSelfoss mætir ÍBV og Fram í bikarnum
Næsta greinFótbrotnaði ölvaður á óskráðu hjóli