Ætlar að raka af sér hárið ef 2 milljónir safnast

„Árið 2012 rakaði ég hárið af fyrir góðgerðarmál og fór allur ágóðinn til barna í Kenya en ég safnaði yfir 600.000 þúsund krónum.

Tilfinningin að gefa var ein af bestu tilfinningum sem ég hef fundið,“ segir Selfyssingurinn og listakonan Erna Kristín Stefánsdóttir.

Enn á ný hefur Erna ákveðið að fórna hárinu fyrir góðgerðarmálefni, nú fyrir börn í Nigeríu.

„Í Nígeríu deyja um tvö hundruð ungabörn á dag vegna vannæringar. Tvöhundruð lítil hjörtu hætta að slá því þau fá ekki meðferð. Ég hef ákveðið að ef við náum að safna tveimur milljónum þá raka ég hárið aftur af. Fyrir tvær milljónir fá 250 börn átta vikna meðferð. Ef 250 börn fá líf þá get ég vel orðið sköllótt aftur,“ segir Erna.

Erna segir að það hafi verið mjög erfitt að velja málefni. „Ég ákvað í sameiningu með Unicef að velja þetta málefni en ástandið er svo slæmt í Nígeríu að það er lygilegt.“

Að sögn Ernu var hún búin að hugsa um það í nokkrar vikur hvað hún gæti gert til að safna svona hárri upphæð. „Ég var komin með nokkrar hugmyndir og aðrir búnir að senda mér hugmyndir líka. En það sem ég vissi innst inni var að það sem myndi vekja mestu athyglina og safna hæstu upphæðinni væri að raka hárið aftur af.“

„Með því að senda sms í númerið 1900 og skrifa “barn” þá greiðir þú 1.000 kr. Sú upphæð er kostnaðurinn við vikumeðferð fyrir vannært barn. Ég veit að jólin eru á næsta leiti og buddan er ekki þykk hjá mörgum. En 1.000 kr. er vonandi eitthvað sem þið sjáið ykkur fært að gefa og hugsið til þess að lítið ljós fær að lifa vegna þess að þið gáfuð 1.000 kr,“ segir Erna sem hefur sett sér það markmið að vera búin að safna tveimur milljónum fyrir gamlársdag.

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta sent SMS-ið barn í númerið 1900 og gefið þannig 1.000 krónur í söfnunina. Einnig er hægt að leggja inn á reikning 701-26-102050 (kt. 481203-2950).

Hægt er að fylgjast með gangi söfnunarinnar á Snapchat hjá Ernu undir nafninu ernuland.

Fyrri greinFSu tapaði á Ísafirði
Næsta greinDansandi krossfiskar í fjölbraut