Ætla að hlúa að öllum aldurshópum

Nýr meirihluti sveitarstjórnar í Rangárþingi ytra mun leggja áherslu á fjölskylduna sem grundvallareiningu í samfélaginu og að hlúa þurfi að öllum aldurshópum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu um meirihlutasamstarf sem undirrituð var í gærkvöldi eftir að Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir fyrrum sveitarstjórnarfulltrúi Á-listans og fulltrúar D-listans í Rangárþingi ytra komust að samkomulagi um nýtt meirihlutasamstarf.

Yfirlýsingin hefur ekki verið send sunnlenska.is og er ekki birt á heimasíðu sveitarfélagsins en hana má hins vegar finna á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins.

Í yfirlýsingunni segir að nýi meirihlutinn munu leggja áherslu á að vinna í þágu allra íbúa sveitarfélagsins og sérstök áhersla verður á gott upplýsingaflæði og að íbúar hafi greiðan aðgang að fulltrúum sveitarstjórnarinnar.

Nýi meirihlutinn mun vinna að eflingu íþrótta- og tómstundastarfs og leggja áherslu á málefni eldri borgara, m.a. með áframhaldandi uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarheimilisins Lundar og uppbyggingu á þjónustuíbúðum aldraðra. Þá verður unnið að gerð siðareglna fyrir sveitarstjórnarfulltrúa en ítarlegri málefnaskrá verður kynnt á næstu vikum.

Formleg meirihlutaskipti munu taka gildi á fundi sveitarstjórnar á næstu dögum þar sem nýr oddviti verður kjörinn, nýtt hreppsráð skipað og gengið frá ráðningu sveitarstjóra.

Nýi meirihlutinn leggur áherslu á að meirihlutaskiptin hafi sem minnsta og helst enga truflun fyrir starfsfólk sveitarfélagsins og samfélagið almennt.

Fyrri greinÁtta milljón króna hagnaður af ULM
Næsta greinFullt út úr dyrum á konukvöldi