Ægir tapaði dýrmætum stigum

Ægismenn töpuðu fyrir KFS í hinum gríðarlega spennandi A-riðli 3. deildar karla í knattspyrnu þegar liðin mættust á Þorlákshafnarvelli í kvöld.

Gestirnir byrjuðu betur í leiknum en Ægismenn sýndu fyrst lífsmark eftir fimmtán mínútna leik. Þá tóku þeir vel við sér og sköpuðu nokkur færi. Á 30. mínútu fækkaði Ægismönnum hins vegar um einn þegar Matthías Björnsson fékk rauða spjaldið eftir samstuð við markvörð gestanna. Heimamenn voru ekki sáttir við dóminn og töldu gult spjald hæfilega refsingu.

Skömmu síðar komust Eyjamenn yfir með marki eftir hornspyrnu og staðan var 0-1 í hálfleik.

Í seinni hálfleik var jafnræði með liðunum framan af en þegar líða tók á hálfleikinn náðu Ægismenn að skapa sér nokkur ágætis færi en inn vildi boltinn ekki. KFS átti ágætar sóknir inn á milli en annars einkenndist seinni hálfleikurinn af flautukonsert og spjaldagleði dómarans.

Fyrri greinTíðindalítill leikur
Næsta greinFrábærar loftmyndir af blómlegu torgi