Þyrlusveitin bjargaði fólki úr sjálfheldu

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, bjargaði þremur göngumönnum úr sjálfheldu fyrir neðan Grýtutind í Eyjafjallajökli í kvöld. Fólkið var vel búið en orðið nokkuð kalt þar sem rok og skafrenningur var á svæðinu.

Útkallið barst á tíunda tímanum í kvöld og var þyrlan kvödd á vettvang ásamt björgunarsveitum úr Rangárvallasýslu og undanförum úr sveitum af höfuðborgarsvæðinu.

Stór hópur manna úr Björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli var kominn í um 350 metra fjarlægð frá fólkinu þegar þyrlan kom á staðinn og hífði fólkið um borð. Í hópi björgunarsveitarmannanna var Þorsteinn Jónsson sem tók þessa mögnuðu mynd sem fylgir fréttinni.

Þyrlan lenti með fólkið, einn Íslending og tvo útlendinga, við lögreglustöðina á Hvolsvelli um klukkan 23.

UPPFÆRT 18.2. kl. 12:05