Þyrlulending við Pétursey

Franskur flugmaður, sem ætlar að fljúga í kringum hnöttinn á fisþyrlu, lenti í gærkvöldi á túninu við Eystri-Pétursey í Mýrdalshreppi.

Þyrlan lenti fyrir framan fjósdyrnar og sagði Eyjólfur Sigurjónsson, bóndi í Eystri-Pétursey í samtali við sunnlenska.is, að heimamenn hefðu verið mjög undrandi að sjá þessa sjón þegar þeir komu úr fjósinu.

„Flugmaðurinn var hræddur við rigningarský sem lá þarna yfir og þess vegna valdi hann að lenda þarna. Hann stoppaði ekki lengi, skoðaði sig aðeins um á túninu og var svo farinn,“ sagði Eyjólfur.

Frakkinn flaug því sem næst til Reykjavíkur og þaðan til Ísafjarðar þar sem ætlunin var að fljúga yfir til Grænlands. Hann lenti reyndar í hremmingum á Ísafirði en þaðan er millilandaflug óheimilt, eins og sjá má á fréttasíðu Bæjarins besta.