Þyrlu hlekktist á sunnan við Nesjavelli

Fimm voru fluttir á sjúkrahús í Reykjavík eftir að þyrlu með fimm manns innanborðs hlekktist á á Hengilssvæðinu í kvöld. Reyndust meiðsl þeirra fimm sem í þyrlunni voru minniháttar. Þeir voru allir fluttir í einni ferð með vél gæslunnar á slysadeild í Reykjavík.

Allar björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út vegna slyssins, ásamt sjúkrabílum frá Selfossi og Reykjavík. Staðsetning þyrlunnar var óljós í upphafi en þyrla Landhelgisgæslunnar fann hana fljótlega eftir að hún fór í loftið. Slysið átti sér stað 2,5 km sunnan við Nesjavallavirkjun.

Morgunblaðið greinir frá því að þyrlan sé í einkaeigu og er hún mikið skemmd.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa og lögreglumenn frá Selfossi eru á leið á vettvang til rannsóknar.