Þyrlan sótti slasaða konu

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni frá Neyðarlínunni kl. 20:21 í kvöld um aðstoð þyrlu eftir að ferðakona slasaðist skammt frá Landmannalaugum, milli Bláhnjúka og Brennisteinsöldu.

Björgunarsveitamenn voru komnir á staðinn en þar sem ekki var talið raunhæft að bera hina slösuðu niður var óskað eftir þyrlunni. Talið var að konan væri fótbrotin.

Þyrlan fór í loftið kl. 20:47 og flaug beint á staðinn þar sem lent var kl. 21:28 í Grænagili, hjá björgunarsveitarmönnum sem höfðu búið um konuna.

Var farið að nýju í loftið 21:38 og flogið beint á Landspítalann í Fossvogi þar sem lent var kl. 22:18.