Björgunarsveitin Tintron aðstoðaði í nótt jeppafólk sem sat fast í nágrenni við Skjaldbreið. Sveitin var kölluð út á ellefta tímanum í gær og var komin á svæðið með snjóbíl rúmum tveimur tímum síðar.
Ekki fundust bílarnir þó strax. Þar sem börn voru með í ferð og símasamband við ferðafólkið afar stopult var ákveðið að kalla út þyrlu LHG til leitar. Henni var þó fljótlega snúið við sökum afar slæms skyggnis.
Stuttu síðar náði fólkið aftur sambandi og gat gefið upp nákvæmari staðsetningu. Þegar björgunarsveitin kom að voru bílarnir fastir en ekkert amaði að fólkinu.
Þar sem um var að ræða vel útbúna jeppa var tekin ákvörðun um að losa þá og fylgja til byggða þangað sem komið var rétt eftir klukkan sjö í morgun.