Þyrla sótti slasaðan vélsleðamann

Rétt fyrir eitt voru björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar af Suðurlandi ásamt vélsleðahópum af höfuðborgarsvæðinu kallaðar út vegna vélsleðaslyss við Hlöðufell.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu fór þar vélsleðamaður fram af hengju og er eitthvað slasaður. Slæmt veður var á svæðinu og þungfært og því gekk hægt að finna slysstaðinn.

Maðurinn var fluttur af slysstaðnum með þyrlu Landhelgisgæslunnar, laust fyrir klukkan þrjú, en björgunarmenn höfðu þá unnið að því að gera manninn kláran til flutnings.

Ekki er ljóst á þessari stundu hver meiðsl mannsins eru en hann er þó ekki talinn lífshættulega slasaður.

Alls tóku um 40 manns þátt í aðgerðinni á vélsleðum, snjóbílum auk þess sem fjallabjörgunarmenn voru til taks á Þingvöllum ef á þyrfti að halda.