Þyrla sótti slasaðan mann við Þingvallavatn

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti í dag mann sem slasaðist í sumarbústað við Þingvallavatn. Slæm færð var að slysstaðnum.

Björgunarfélag Árborgar var kallað út til þess að hjálpa sjúkraflutningamönnum við að komast á slysstaðinn. Svo fór að þyrla Landhelgisgæslunnar sótti hinn slasaða en björgunarsveitin aðstoðaði aðstandendur við að komast til Reykjavíkur.

Í tilkynningu frá Landsbjörgu kemur ekki fram hver tildrög slyssins voru, eða hver meiðsli mannsins eru.

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa víða verið að störfum í dag, yfirleitt vegna ófærðar. Meðal annars þurftu björgunarsveitir að aðstoða ökumenn á nokkrum föstum bílum á Mosfellsheiði og Þingvallavegi.

Fyrri greinMálþing um náttúruvá í Rangárþingi
Næsta greinBíll með þremur mönnum hafnaði í Sultartangalóni