Þýfi fannst á Selfossi

Þýfi úr bíl sem brotist var inn í við Hrafnhóla á Selfossi um síðustu helgi fannst við húsleit í bænum í gær auk fíkniefna. Þrír voru handteknir.

Úr bílnum var stolið fartölvu, sjónvarpsflakkara og fleiri munum. Lögreglan fékk í gær upplýsingar um að fartölvan hefði fundist. Fljótlega beindist grunur að ákveðnum manni og var hann handtekinn.

Í kjölfar þess voru tveir aðrir handteknir og húsleitir framkvæmdar. Þannig komust allir hlutirnir sem stolið var í leitirnar auk lítilræðis af fíkniefnum. Tveir til viðbótar þeim þrem sem voru handteknir voru boðaðir til yfirheyrslu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu braust einn mannanna inn í bílana en hinir tengdust málinu annað hvort með því að hafa keypt hluta þýfisins eða hafa verið kunnugt um innbrotið.