Þúsundir á sléttusöng

Hápunktur bæjarhátíðarinnar Sumar á Selfossi var í kvöld þegar um 4.000 manns söfnuðust saman á sléttusöng í bæjargarðinum.

Magnús Kjartan hélt uppi stemmningunni og stjórnaði söngnum fram að glæsilegri flugeldasýningu og strákarnir í Skítamóral slóu svo botninn í dagskrána. Nú tekur við Sumar á Selfossi-dansleikur í Hvítahúsinu með Skítamóral en hátíðinni lýkur á morgun samhliða úrslitakeppni Olísmótsins.

Þrátt fyrir skin og öflugar skúrir í dag sagði Einar Karl Þórhallsson, formaður Knattspyrnufélags Árborgar, að dagurinn hefði heppnast vel og Selfyssingar hafi tekið virkan þátt í dagskrá hátíðarinnar.