Þúsund skopteikningar á 20 árum

Í Sunnlenska fréttablaðinu í þessari viku birtist eittþúsundasta skopteikningin eftir Óðinn Kaleví Andersen á Eyrarbakka. Fyrsta skopteikning Óðins birtist í Sunnlenska þann 19. janúar 1995, rúmum þremur árum eftir að blaðið kom fyrst út.

Því hefur Óðinn teiknað vikulega í blaðið í tvo áratugi, með aðeins örfáum undantekningum. Hann tekur sér dágóðan tíma í að teikna hverja mynd, en um fjórar til fimm klukkustundir fara í hverja skopteikningu frá því hann fyrst byrjar á henni.

„Ég hef líka breytt nokkrum sinnum um stíl, maður er alltaf að prófa sig áfram, ekki síst núna með meiri tölvutækni,“ segir Óðinn – og hann hyggst halda áfram að teikna á meðan hann hefur gaman af því.

„Ég veit ekki hvort þær verða þúsund í viðbót skopteikningarnar, en maður hefur gaman af þessu og maður glottir innra með sér meðan maður er að þessu,“ segir listamaðurinn.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinHver er á þessari Hondu?
Næsta greinÓttast um fisflugvél við Þingvallavatn