Þúsund gestir mættir á Bestu

Besta útihátíðin 2012 hófst á Gaddstaðaflötum við Hellu í gærkvöldi. Um 1.000 gestir voru á hátíðarsvæðinu í nótt og fór hátíðin að mestu rólega fram.

Öflug gæsla og löggæsla er á svæðinu og verður henni haldið áfram um alla helgina. 10-15 mál komu upp hjá lögreglunni og var lagt hald á nokkuð af fíkniefnum.

Lögreglan mun halda uppi ströngu fíkniefnaeftirliti á svæðinu, en einnig verður fylgst með því hvort ungmenni undir 18 ára aldri hafa komist inn á hátíðarsvæðið, en þeim er óheimill aðgangur.

Rekið verður athvarf á vegum barnaverndanefndar á Hellu fyrir þau ungmenni sem eru undir 18 ára aldri, og haft verður samband við foreldra eða forráðamenn þeirra og þau beðin um að sækja börnin.

Lögreglan vill koma því á framfæri að umferð í gegnum Hellu gæti orðið hæg þegar líður á daginn, en búist er við nokkru þúsund gestum á hátíðina, ennfremur sem umferð tengd Goslokahátíðinni í Vestmannaeyjum fer í gegnum Hellu.

Mikil breyting hefur verið gerð á aðgengi umferðar að hátíðarsvæðinu á Hellu og ætti ekki að myndast sama ástand og gerðist í kringum sömu hátíð í fyrra, þegar bílalestin náði vestur fyrir Rauðalæk.

Vegfarendur eru þó hvattir til að sýna tillitssemi við aksturinn og hafa ofangreint í huga, þar sem minniháttar tafir geta orðið á umferð seinni partinn í dag.