Þurfa að bæta við sig mönnum

Verkefnastaðan hjá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða hefur heldur lagast undanfarnar vikur og horfur eru á að fyrirtækið þurfi að ráða til sín 5 til 7 nýja starfsmenn.

Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri Ræktó, segir að það séu einkum borverk sem hafa aukist enda hefur hækkandi orkuverð ýtt við mörgum með að leita að jarðhita hjá sér. Þá hafi góður árangur að Efstalandi í Ölfusi vakið eftirtekt.

En þó að verkefnastaðan hafi batnað þá sjá menn ekki langt fram í tímann. Að sögn Ólafs eru staðan þokkaleg fram í nóvember og vonir eru um fleiri verkefni. Í sumar var 60 starfsmönnum sagt upp en flestir hafa verið ráðnir aftur. Hjá Ræktunarsambandinu eru nú 46 starfsmenn á launaskrá.