Þrjú umferðaróhöpp í liðinni viku

Þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á Selfossi í vikunni, á Þingvallavegi, Suðurstrandarvegi og á Hellisheiði.

Bifreið fór útaf Þingvallavegi skammt vestan við Þjónustumiðstöðina. Ökumaður hennar hafði fengið aðsvif en slasaðist ekki við útafaksturinn. Bifreiðin skemmdist talsvert.

Annað óhappið varð á Suðurstrandarvegi í Selvogi. Þar missti ökumaður stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingu að hún fór útaf veginum og valt heila veltu. Ökumaður var fluttur til læknis með minni háttar áverka. Þriðja óhappið varð á Hellisheiði en þar var bifreið ekið á umferðarmerki.

Ellefu ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í vikunni og þrír ökumenn voru kærðir fyrir að sjá ekki til þess að farþegar undir 15 ára aldri væru með öryggisbelti spennt. Sekt við því broti eru 15 þúsund krónur sem er 5 þúsund krónum hærri sekt en ef um væri að ræða ökumann sjálfan eða farþega eldri en 15 ára.

Að sögn lögreglu hafa sumir foreldrar borið því við að stundum sé erfitt að fá eldri börn til að nota öryggisbelti. Þess vegna er ástæða til að brýna fyrir ökumönnum að þeir bera ábyrgð á því að börn undir 15 ára aldri séu með öryggisbelti þegar bifreið er í akstri.

Fyrri greinBrotist inn í íbúðarhús á Selfossi
Næsta greinDagbók lögreglu: Fjölbreytt verkefni