Þrjú innbrot tilkynnt

Lögreglunni á Selfossi var tilkynnt um þrjú innbrot í gærkvöldi og nótt þar sem ýmsu var stolið.

Brotist var inn í vinnuskúr í Miðfellslandi í Þingvallasveit og þaðan stolið verkfærum. Einnig var tilkynnt um innbrot í Skógarnesi í Laugardal. Þar var stolið flatskjá og fleiri raftækjum. Ekki er vitað hvenær innbrotin áttu sér stað.

Undir morgun var svo brotist inn í bifreið á Selfossi og úr henni stolið tölvu og fleiri hlutum.

Annars var nóttin tiltölulega róleg hjá Selfosslögreglunni en einn ökumaður var tekinn fyrir ölvunarakstur í Hveragerði um fimmleytið í morgun.