Þrjár vinkonur gómaðar á Litla-Hrauni

Lögreglan á Selfossi gómaði tvær konur með fíkniefni og þá þriðju undir áhrifum fíkniefna á Litla-Hrauni í síðustu viku.

Konurnar þrjár voru samferða á Hraunið og var ein þeirra stöðvuð eftir að fíkniefnaleitarhundur merkti hana og framvísaði hún þá ætluðum fíkniefnum sem hún hafði falið í leggöngum og hugðist koma þeim til fangans sem heimsækja átti.

Þá var leitað á vinkonu hennar og reyndist hún hafa lítilræði af efnum í vasa sínum.

Lögreglumenn sem komu til að vinna úr fíkniefnamálunum ráku þá augun í þriðju konuna úti á hlaði en sú hafði ekið hinum tveimur á Hraunið. Konan kannaðist við að hafa ekið úr Reykjavík og reyndist, við prófun, svara jákvætt við fíkniefnum.

Einn ökumaður til viðbótar var tekinn undir áhrifum fíkniefna í liðinni viku og fjórir voru stöðvaðir grunaðir um ölvunarakstur.

Fyrri greinSlasaðist á sleða
Næsta greinMargir með þungan bensínfót