Þrír sunnlenskir afreksnemar hljóta afreksstyrk Háskóla Íslands

Þrír Sunnlendingar eru í hópi 28 afreksnema sem hlutu styrki í vikunni úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Styrkþegarnir eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi og innritað sig til náms við skólann í haust.

Alls hefur verið úthlutað níu sinnum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands en frá því að fyrstu styrkirnir voru veittir árið 2008 hafa rúmlega 180 nýnemar tekið við styrkjum úr sjóðnum. Markmið hans er að styrkja efnilega nýnema til náms við Háskóla Íslands og nemur hver styrkur 375 þúsund krónum. Samanlögð styrkupphæð nú er því rúmar tíu milljónir króna. Þeir háskólanemar sem hlutu styrk frá HÍ eru eftirfarandi:

Emil Sigurðsson, býr á Laugarvatni í Laugardal og lauk námi frá ML í vor, brautskráðist af náttúrufræðibraut með ágætiseinkunn. Emil stefnir á nám í læknisfræði og í framtíðinni að starfa á alþjóðavettvangi að fræðslu um heilbrigðismál og gæði læknisþjónustu.

Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir frá Þorlákshöfn dúxaði frá náttúrufræðibraut FSu eftir þriggja ára nám við skólann. Með námi lagði hún stund á nám í trompetleik og hefur lokið framhaldsprófi í þeirri listgrein. Auk þessa hefur hún æft fimleika frá sex ára aldri og tekið þátt í fjölbreyttum félagsstörfum, svo sem setu í ungmennaráði Ölfuss. Aðalbjörg stefnir á nám og starf á sviði heilbrigðisvísinda.

Karen Engilbertsdóttir frá Nefsholti brautskráðist af náttúrufræðibraut Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi í árslok 2014 eftir sjö anna nám og varð semidúx skólans. Hún hefur í áranna rás tekið þátt í fjölbreyttu íþróttastarfi og tók virkan þátt í félagslífi skólans. Karen stefnir á nám í ferðamálafræði og hyggst í framtíðinni starfa á þeim vettvangi.

Við mat á styrkþegum er horft til árangurs þeirra á stúdentsprófi, auk annarra þátta eins og virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangurs á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum.

Fyrri greinRekstrarhalli HSU gríðarlegur
Næsta greinMjög góður árangur Sunnlendinga í Gautaborg