Þrír í haldi vegna skemmdarverka

Þrír menn eru í haldi hjá lögreglunni á Hvolsvelli vegna eignarspjalla sem framin voru á sumarhúsum í Rangárþingi ytra síðastliðna nótt.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er talið að um verulegt eignartjón sé að ræða. Rúður voru brotnar og tjón unnið á innanstokksmunum.

Verið er að yfirheyra mennina sem eru í haldi og eru þeir grunaðir um að hafa verið valdir að eignaspjöllunum. Ekki er vitað að svo stöddu hvað hafi vakað fyrir skemmdarvörgunum en aðstæður benda ekki til þess að markmiðið hafi verið þjófnaður.

Ekki er talið að fleiri tengist málinu en þeir sem í haldi eru.