Þrír grunaðir innbrotsþjófar handteknir

Lögreglan á Selfossi handtók þrjá menn í nótt en þeir eru grunaðir um að hafa ætlað að brjótast inn í geymslugáma á gámasvæði í Reykholti í Biskupstungum.

Mennirnir eru grunaðir um að hafa brotist inn í sömu gáma fyrir stuttu og þá tæmdu þeir meðal annars úr handslökkvitæki á vettvangi.

Tveir mannanna voru handteknir í bifreið á Biskupstungnabraut við Svínavatn. Lögreglumenn voru á leið í Reykholt þegar þeir bættu bíl mannanna þarna en tilkynnandi hafði fylgt þeim eftir.

Mennirnir voru fluttir í fangageymslur á Selfossi en þegar þangað var komið mættu tveir félagar þeirra á lögreglustöðina á Selfossi og vildu fá þá lausa. Glöggur lögreglumaður tók þá eftir að skór annars mannsins passaði við skóför sem fundust í fyrra innbrotinu og því var hann líka handtekinn.

Fyrri greinGylfi Ægisson í Höfninni í kvöld
Næsta grein„Einlægur ásetningur ríkisstjórnarinnar að koma sjávarútveginum í þrot“