Þrír garðar í Hveragerði verðlaunaðir

Viðurkenningar fyrir fegurstu garðana í Hveragerði árið 2013 voru afhentar í Listigarðinum Fossflöt um síðustu helgi.

Eftirtaldir garðar þóttu bera af þetta árið og var eigendum þeirra færður þakklætisvottur frá Hveragerðisbæ og verðlaunaskjöldur sem væntanlega verður settur upp á áberandi stað utandyra.

Kambahraun 7 – Steinvör Ester Ingimundardóttir og Hlöðver Guðmundsson
Þegar gengið er framhjá Kambahrauni 7 fer ekki framhjá neinum að hér búa fagurkerar sem hafa safnað að sér ýmsum áhugaverðum plöntum. Garðurinn að framanverðu er lítill og snotur og er mjög áhugavert að gægjast yfir lóðarmörkin og njóta. En ekki er allt sem sýnist því að í bakgarðinum er heill heimur sem er vel þess virði að fá ganga inní.

Dynskógar 7 – Berglind Helgadóttir og Jóhann Hjaltalín Stefánsson
Garður í grónu hverfi. Garðeigendur hafa verið að byggja upp garðinn að nýju, hægt og rólega en láta gömlu trén halda sér. Þarna má sjá ýmsar áhugaverðar plöntu tegundir.

Hveramörk 18 – Inga Dóra Jóhannesdóttir og Jón Hafsteinn Eggertsson
Gamall og hlýlegur trjágarður. Fjölbreyttur, fullvaxinn trjágróður, umlykjandi kyrrð og ró í miðjum bæ. Allt á sínum stað, geislandi af væntumþykju og lífsgleði.

Að lokinni verðlaunaafhendingu var öllum boðið í gómsæta grænmetissúpu í Hveragarðinum.

Fyrri greinÚtboð raskaði ekki samkeppni
Næsta greinÍstak bauð lægst í breikkun Hellisheiðar og Kamba