Þrír fluttir með þyrlu eftir bílveltur

Þrír menn voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík um helgina eftir tvær keimlíkar bílveltur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi.

Um hádegi á laugardag hafnaði lítil pallbifreið á hvolfi ofan í skurði við tún í gamla Gnúpverjahreppi. Ökumaður hennar hafði verið að smala hrossum úr túninu þegar hann varð fyrir því óláni að aka út í skurð.

Ökumaðurinn var einn í bílnum og var með verki í baki eftir óhappið. Þyrla Landhelgisgæslunnar var á æfingaflugi skammt frá og lenti hún á staðnum og flutti manninn á slysadeild Landspítala.

Seinna slysið varð í gærmorgun þar sem tveir menn á jeppa voru að fæla gæsir af túni skammt frá Hvolsvelli. Ökumaðurinn tók ekki eftir skurðinum fyrr en um seinan og jeppinn fór á hliðina ofan í.

Hvorugur mannanna var í bílbelti og var annar þeirra kvalinn í baki eftir slysið en hinn eitthvað lemstraður.

Þar sem óljóst var í upphafi um ástand mannanna var þyrlan kölluð til og hún flutti báða mennina á slysadeild í Reykjavík.

Fyrri greinKærleikskökur
Næsta grein„Markaðurinn fyrir Takumi er gríðarlega stór“