Þrír fluttir með þyrlu á slysadeild

Kl. 15:23 í dag barst Neyðarlínunni tilkynning um vélsleðaslys við Innstu-Jarlhettu, á Langjökli. Samkvæmt tilkynningunni fóru þrír vélsleðar fram af snjóhengju og sex einstaklingar væru slasaðir, þar af væri einn án meðvitundar.

Í samræmi við alvarleika tilkynningarinnar var allt tiltækt lið sjúkraflutninga og lögreglu sent af stað og einnig sent heildarútkall á björgunarsveitir í Árnessýslu ásamt því að þyrla Landhelgisgæslunnar fór af stað.

Nokkru síðar kom í ljós að fjórir einstaklingar væru slasaðir og að meiðsli þeirra væru ekki eins alvarleg og í fyrstu var talið og var þá dregið úr umfangi útkallsins.

Þrír voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysadeild Landspítalans í Fossvogi en einn með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Meiðsli þeirra eru ekki talin alvarleg.

Lögreglumenn eru nú á slysstað við vettvangsrannsóknir og mun lögreglan á Suðurlandi annast frekari rannsókn á slysinu. Lögreglan á Suðurlandi þakkar öllum þeim viðbragðsaðilum sem að útkallinu komu fyrir veitta aðstoð.

Fyrri greinAllar björgunarsveitir á Suðurlandi kallaðar út vegna vélsleðaslyss
Næsta greinGuðmundur til liðs við norsku meistarana