Þriggja bíla árekstur við Vík

Mikil hálka er nú á vegum í umdæmi Lögreglunnar á Suðurlandi, sérstaklega í nágrenni, og austan Víkur í Mýrdal.

Fyrr í morgun varð þriggja bifreiða árekstur á Suðurlandsvegi í brekkunni fyrir ofan að Vík í Mýrdal og þrjár bifreiðar til viðbótar fóru út af veginum. Fjölmennt var í hverri bifreið en meiðsli voru ekki teljandi.

Farþegar og ökumenn voru fluttir til nánari aðhlynningar að Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vík en allir voru þeir erlendir ferðamenn.

Lögreglan beinir þeim tilmælum til vegfarenda að gefa sér tíma til ferðalaga og fara ekki af stað á vanbúnum bifreiðum.

Í dag verður víða þokkalegasta veður fram eftir degi en vaxandi suðaustanátt með slyddu og síðan rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu síðdegis. Búast má við snjókomu á Hellisheiði, Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði síðdegis og fram á kvöld.

Fyrri greinSkoða byggingu knattspyrnuhúss á Selfossi
Næsta greinLöng vakt hjá björgunarsveitunum í nótt