Þriðji hver ökumaður hafði drukkið

Lögreglan á Selfossi stöðvaði 44 ökumenn í Veiðivötnum í gærkvöldi og höfðu sextán þeirra drukkið áfengi fyrir akstur.

Tveir ökumenn höfðu þó drukkið svo mikið að svipta þurfti þá ökuleyfinu á staðnum. Hinum var öllum gert að hætta akstri og fengu þeir áminningu.

Um verslunarmannahelgina stöðvaði Selfosslögreglan 40 ökumenn í Veiðivötnum en þá var aðeins einn ökumaður drukkinn. Ástandið var mun verra í gær en rúmlega þriðji hver ökumaður var undir einhverjum áhrifum áfengis.

Lögreglan fór snemma uppeftir í gær og var við eftirlit í Veiðivötnum þar til um klukkan tíu í gærkvöldi.