Þrennt flutt á sjúkrahús

Þrír voru fluttir til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi eftir að jeppi valt á Suðurlandsvegi, rétt austan við Þjórsárbrú um klukkan hálfníu í kvöld.

Þrennt var í bílnum, tveir karlar og kona og sluppu þau með minniháttar meiðsli. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli tognaði ökumaðurinn líklega í baki en hin sluppu með skrámur.

Mikil hálka var á vettvangi og er talið að ökumaðurinn hafi misst stjórn á jeppanum á flughálum veginum. Bíllinn er mjög illa farinn ef ekki ónýtur að sögn lögreglunnar.