Þrengir að gripum og þrýtur hey

Stjórn Félags kúabænda á Suðurlandi vekur athygli á ófremdarástandi vegna verkfalls dýralækna hjá MAST. Það hefur nú staðið síðan 20. apríl sl.

Stjórn félagsins skorar á deiluaðila að sinna samningsvinnu með lausn í huga nú þegar.

Í tilkynningu frá félaginu segir að mjög þrengi að gripum í fjósum bænda. Vegna tíðarfars verður gripum ekki sleppt í haga að sinni og betri hey ætluð nautgripum eru allvíða á þrotum. Erfitt verði því að framfylgja löggjöf um dýravelferð vegna þessa ástands ef svo heldur áfram.

„Að ekki sé minnst á heilbrigðisvandamál hjá gripum sem alltaf geta komið upp. Þetta vandamál mun að auki teygja sig áfram næstu mánuði fram í tímann þó deilan leysist, vegna uppsafnaðs vanda síðustu vikur síðan slátrun stöðvaðist. Einnig er tekjustreymi greinarinnar ekki til staðar með tilheyrandi kostnaði og erfiðleikum í rekstri þeirra sem hafa aðaltekjur af kjötframleiðslu. Reikningar halda áfram að berast,“ segir í tilkynningunni.

Jafnfram kemur þar fram að ef leysa á fyrirliggjandi kjötskort verslana og neytendamarkaðs á afurðum nautgripa með undanþágum, sé þess krafist að innlend framleiðsla sitji við sama borð og innflutt.

Fyrri greinFramkvæmdir hafnar við jarðstrengslagnir Landsnets
Næsta greinÓk fram af hengju á Vatnajökli