Þrándarholt fékk umhverfis-verðlaunin

Þrándarholt hlaut umhverfisverðlaun Skeiða-og Gnúpverjahrepps árið 2016. Verðlaunin voru veitt þann 3. ágúst síðastliðinn en umhverfisnefnd sveitarfélagsins hefur veg og vanda af valinu.

Anna María Flygenring, formaður nefndarinnar, afhenti verðlaunin en nefndarfólki fannst ekki erfitt að komast að niðurstöðu um að Þrándarholt ætti þessi verðlaun svo sannarlega skilið.

Bærinn stendur hátt og er allt vel upp byggt og snyrtilegt og hefur svo verið um langt skeið. Þegar komið er á hlaðið vekur eftirtekt gamall Farmall, vel viðhaldinn og málaður.

Viðhald gamals bragga er einnig til sóma og hýsir hann Farmalinn á vetrum, því ekki er sá forngripur látinn standa úti. Ræktaðar eru matjurtir og blómagarður, og einnig hefur verið stunduð umtalsverð skógrækt, sem sést orðið langt að.

Ógróinn blettur finnst varla, en moð er keyrt í bakka við Þjórsá, sem brýtur dálítið á landi. Ábúendur leggja kapp á að nota umhverfisvænar vörur til þrifa og fylgja auðvitað flokkun á sorpi.

Formaður sagði ábúendur í Þrándarholti vel að þessum verðlaunum komna og óskaði umhverfisnefnd þeim innilega til hamingju og var þeim þar með afhent skiltið, sem sett er upp við afleggjara þeirra bæja er þennan heiður hljóta.