Þórunn sigraði í upplestrar-keppninni

Þórunn Ösp Jónasdóttir úr Vallaskóla á Selfossi sigraði í Stóru upplestrarkeppninni í vesturhluta Árnessýslu sem haldin var í Vallaskóla sl. þriðjudag.

Drífa Björt Ólafsdóttir úr Sunnulækjarskóla varð í 2. sæti og Vilborg Óttarsdóttir úr Grunnskólanum í Hveragerði í 3. sæti. Aukaverðlaun fyrir vandaðan flutning ljóðs hlaut Lilja Dögg Erlingsdóttir úr Sunnulækjarskóla.

Þetta var önnur lokahátíð keppninnar á Suðurlandi af þremur en þar kepptu nemendur í 7. bekk úr fimm skólum; Vallaskóla, Sunnulækjarskóla, Grunnskólanum í Hveragerði, Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri og Grunnskólanum í Þorlákshöfn.

Keppnin fór fram í þremur hlutum. Fyrst lásu keppendur hluta úr sögu Kristínar Helgu Gunnarsdóttur Draugaslóð, næst völdu þau úr tíu ljóðum Gyrðis Elíassonar og fluttu og loks lásu þau ljóð að eigin vali.

Dagskráin var krydduð með alls kyns öðrum listviðburðum. Nemendur úr Tónlistarskóla Árnesinga fluttu tónlist undir stjórn Roberts Darling skólastjóra tónlistarskólans, vinningshafar frá fyrra ári kynntu höfunda keppninnar og Bjarni Harðarson bóksali og rithöfundur flutti ávarp.

Dómnefnd skipuðu þau Þorleifur Hauksson formaður dómnefndar, Kolbrún Sigþórsdóttir, Sr. Halldóra M. Þorvarðardóttir og Hrefna Clausen.