Þorlákur fékk viðurkenningu á degi gegn einelti

Í dag, 8. nóvember, er árlegur baráttudagur gegn einelti. Í tilefni dagsins veitti verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti Selfyssingnum Þorláki Helgasyni, framkvæmdastjóra Olweusarverkefnisins gegn einelti, viðurkenningu fyrir ötult starf í baráttunni gegn einelti í skólasamfélaginu.

Þorlákur hefur verið umsjónarmaður Olweusaráætlunarinnar hér á landi frá upphafi og sat áður í starfshópi á vegum menntamálaráðuneytisins um mótun aðgerða gegn einelti í skólum. Verkefnið var í fyrstu rekið sem tilraunaverkefni í samstarfi ýmissa aðila en undanfarin ár hefur Þorlákur verið sjálfstæður framkvæmdastjóri Olweusarverkefnisins og hefur notið stuðnings stjórnvalda og annarra aðila til að halda verkefninu gangandi.

Olweusaráætlunin gegn einelti hefur verið virk á Íslandi í rúman áratug eða frá árinu 2002. Hún teygir sig inn í allt skólasamfélagið, hefur í mörgum skólum gjörbreytt vinnulagi og lagt drjúgan skerf til skólaþróunar í landinu. Yfir áttatíu skólar hafa verið hluti af áætluninni og samtals yfir 100 þúsund nemendur hafa tekið þátt í könnunum sem lagðar eru fyrir í skólunum á hverju ári.
Um áttatíu verkefnastjórar hafa verið menntaðir til að verða faglegir leiðbeinendur í skólunum, styðja við innleiðingu Olweusaráætlunarinnar og til að halda kerfinu við. Mikilvæg þekking, reynsla og hæfni hefur orðið til í skólasamfélaginu með verkefninu. Reynsla kennara og annarra starfsmanna hefur einnig færst milli skóla sem ekki teljast sérstaklega Olweusarskólar.

Sem umsjónarmaður Olweusaráætlunarinnar hefur hann tengst ýmsum þáttum skólastarfs, ekki síst þeim sem beint eða óbeint varða velferð nemenda og allra aðila í skólasamfélaginu. Hann hefur miðlað þekkingu og reynslu vítt og breitt innanlands og veitir þátttökuskólunum stuðning við innleiðingu og ráðgjöf um eineltismál og skólabrag.

Á vef menntamálaráðuneytisins segir að Þorlákur hafi sýnt mikla þrautseigju og úthald við að halda Olweusaráætluninni gangandi og unnið að ýmsum þróunarverkefnum til að bæta verkefnið enn frekar. Einnig sér hann um framkvæmd árlegrar könnunar á umfangi eineltis í þátttökuskólunum og sér um kynningu á niðurstöðum og veitir ráðgjöf um úrbætur.

Viðurkenning fyrir starf gegn einelti var veitt í fyrsta skipti í fyrra þegar kvennalandsliðið í knattspyrnu fékk hana fyrir skilaboð gegn einelti og mikilvægi þess að fagna fjölbreytileikanum.