Þorði ekki að kæra rán

Tveir mannanna sem frömdu vopnað rán á Selfossi fyrir rúmri viku síðan höfðu nokkrum dögum áður framið annað rán á Selfossi.

Sá sem varð fyrir ráninu þá varð svo óttasleginn eftir hótanir mannanna að hann þorði ekki að kæra. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi

Mikil vinna hefur verið lögð í rannsókn ránsmálsins frá síðustu helgi. Eins og sunnlenska.is greindi frá sl. föstudag hafa mennirnir játað að hluta og gerð hefur verið krafa um að reynslulausn tveggja þeirra verði dæmd upp.

Vonir standa til að rannsókn ljúki á næstu dögum og málið þá sent ákæruvaldi til frekari ákvörðunar.