Þjófurinn gaf sig fram við lögreglu

Lögreglunni á Suðurlandi bárust tíu kærur vegna þjófnaðar í liðinni viku. Flest þjófnaðarmálanna eru upplýst þar á meðal þjófnaður á peningum í Landmannalaugum.

Það mál upplýstist þegar ungur karlmaður kom í lögreglustöðina á Hvolsvelli í gær til að skila peningum sem hann sagðist hafa stolið úr baðhúsinu. Hann var yfirheyrður um brotið. Málið verður að lokinni rannsókn sent til ákærusviðs til frekari meðferðar.

Maðurinn hafði notað steypustyrktarjárn og brotið upp þrjá af sex sturtusjálfsölum í Landmannalaugum. Hann hafði aðeins lítilræði af klinki uppúr krafsinu en sturturnar verða lokaðar næstu daga vegna skemmdanna á sjálfsölunum.

Flest þjófnaðarmálanna sem lögreglan rannsakaði í síðustu viku áttu sér stað á Selfossi. Meðal annars voru tveir erlendir karlmenn handteknir fyrir búðahnupl á Selfossi. Þeir voru yfirheyrðir og látnir lausir að því loknu.

Fyrri greinFyrstu réttirnar verða 11. september
Næsta greinSíbrotamaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald