Þjófapar á ferðinni á Selfossi

Á föstudag hafði lögregla afskipti af pari sem grunað var um að hafa stolið nýjum farsíma úr verslun M&M að Eyravegi 2 á Selfossi.

Lögreglumenn fundu parið stuttu síðar á Selfossi og var karlmaðurinn með símann í fórum sínum. Maðurinn sagði símann gamlan og í hans eigu. Síðar sagðist hann hafa fundið símann við ruslagáma hjá verslun M&M. Síminn reyndist vera sá sami og var stolið úr versluninni.

Sama dag hafði lögregla haft afskipti af konunni eftir að hún var staðin að því að taka bók úr versluninni, fara með hana að afgreiðslukassa og segja afgreiðslumanni að hún vildi skila bókinni og fá inneignarnótu.

Konan viðurkenndi að hafa ætlað að svíka fjármuni út úr versluninni með þessu. Fyrr í vetur var þetta par á ferð á Selfossi og í Hveragerði þar sem það stundaði það að stela vörum og svíkja fjármuni út úr verslunum.