Þjóðverjinn hringdi í 112

Þjóðverjinn sem leitað var að norðan Vatnajökuls í nótt hafði samband við Neyðarlínuna fyrir skömmu og bað um aðstoð.

Leit að manninum bar engan árangur í nótt en vélsleðamenn frá Flugbjörgunarsveitinni á Hellu, Hjálparsveitinni Dalbjörg í Eyjafirði og Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri könnuðu alla skála á leiðinni í Nýjadal þar sem síðast heyrðist til mannsins

Í ljós kom að hann hafði skrifað í gestabók í Versölum 14. maí en engin önnur ummerki sáust um ferðir hans.

Maðurinn hafði svo samband við Neyðarlínuna nú fyrir skömmu og bað um aðstoð. Hann gat ekki gefið nákvæmar upplýsingar um staðsetningu sína en einhverjar þó, auk þess sem hægt var að miða út grófa staðsetningu út frá símasendum á svæðinu.

Björgunarsveitir frá suðausturlandi hafa verið sendar af stað til að hafa uppi á manninum.