Þjóðhagsleg hagkvæmni stórskipahafnar í Þorlákshöfn verði metin

Bæjarstjórn Ölfuss skorar á þingmenn kjördæmisins að leggja fram þingsályktunartillögu um að metin verði þjóðhagsleg hagkvæmni stórskipahafnar í Þorlákshöfn annars vegar og hins vegar hafnar á Faxaflóasvæðinu, til að mynda í Hvalfirði.

Tillaga þess efnis var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í Ölfusi í síðustu viku.

Auk þess minnir bæjarstjórn Ölfuss á nauðsyn þess að framkomin þingsályktunartillaga þingmanna Suðurkjördæmisins um uppbyggingu stórskipahafnar í Þorlákshöfn nái fram að ganga.

“Uppbygging stórskipahafnar í Þorlákshöfn er nauðsynleg fyrir frekari atvinnuppbyggingu á Suðurlandi. Ljóst er að samfara höfninni mun flutningsstarfsemi aukast verulega. Líklegt er að vaxandi fjöldi skemmtiferðaskipa muni sækja til Þorlákshafnar. Hafnartengd starfsemi mun vaxa og ýmiss léttaiðnaður með útflutningstengda starfsemi leita til Suðurlands,” segir einnig í áskorun bæjarstjórnarinnar.