Þjóðgarðurinn fái hótelbætur

Þingvallanefnd telur að tryggingabætur vegna bruna Hótels Valhallar eigi að renna til þjóðgarðsins á Þingvöllum.

Hótel Valhöll brann til grunna fyrir rétt rúmu ári síðan. Álfheiði Ingadóttur, formanni Þingvallanefndar, og Ólafi Erni Haraldssyni, þjóðgarðsverði, hefur verið falið af nefndinni að ræða við fulltrúa forsætisráðuneytisins um að þjóðgarðurinn fái að ráðstafa bótum sem fást eftir bruna hótelsins.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að Þingvallanefnd telji þjóðgarðinn hafa orðið fyrir skaða við bruna Valhallar. „Valhöll var mikilvægur hluti af gæðum þjóðgarðsins og eftir bruna hússins hafa innviðir þjóðgarðsins því rýrnað,” segir í samþykkt nefndarinnar, sem telur full rök til þess að tryggingabætur renni til uppbyggingar í þjóðgarðinum eins og áskilið er samkvæmt brunatryggingum.