Þjóðgarðurinn fær aukafjárveitingu vegna eldgossins

Vatnajökulsþjóðgarður fær tólf milljón króna aukafjárveitngu frá ríkinu til að standa straum af óhjákvæmilegum viðbótarkostnaði sem tengist að mestu vöktun og þátttöku í mælingum vísindamanna á gosstöðvunum í Holuhrauni.

Á fundi ríkisstjórnarinnar í dag voru rædd viðbrögð og aðgerðir vegna eldgossins og jarðhræringanna norðan Vatnajökuls og ríkisstjórnin samþykkti að veittar yrðu 329 til lykilstofnana vegna áfallins kostnaðar í ágúst og september auk þess sem teknar yrðu frá 358 milljónir kr. til áramóta ef ástand á gossvæðinu helst óbreytt út þann tíma, eða samtals 687 milljónir króna.

Auk Vatnajökulsþjóðgarðs rennur viðbótafé til Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Landhelgisgæslunnar, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Vegagerðarinnar.

Inni í þessum fjárframlögum er gert ráð fyrir m.a. að fjölga nettengdum mælitækjum um landið sem vakta styrk og gildi brennisteinsdíoxíðs SO2 sem og handmælitækjum. Vöktun á gossvæðinu yfir vetramánuðina hefur verið skipulögð. Að auki hefur verið lagt til að hefja einnig mælingar á styrk brennisteinssýru SO4.

Þá var samþykkt erindi frá embætti Landlæknis um að í gang fari eftirlit vegna áhrifa gasmengunar frá gosstöðvunum á heilsufar almennings, en að verkefninu mun Landlæknisembættið vinna á næsta sex mánaða tímabili.

Fyrri greinÓloft víða á Suðvesturlandi
Næsta greinÞór mætir Keflavík í bikarnum