Þjóðgarðsvörður kærir kafarann

Þjóðgarðsvörður á Þingvöllum hefur kært kafara sem var hætt kominn í Silfru á föstudaginn. Maðurinn, sem er norskur, kafaði án viðeigandi búnaðar og tilskilinna leyfa í trássi við lög og reglur.

Þá hafi hann látið undir höfuð leggjast að tilkynna um fyrirhugaða köfun í þjónustumiðstöð þjóðgarðsins og framvísa skírteinum um hæfni sína.

„Hann virti að vettugi reglur sem settar hafa verið um köfun í þjóðgarðinum en þær eru kynntar með áberandi hætti á skiltum við Silfru og á bílastæði kafara sem og á heimsíðu þjóðgarðsins. Fleiri ákvæði í reglum og lögum kunna að hafa verið brotin og skýrist það við rannsókn lögreglu,“ segir í tilkynningu frá Ólafi Erni Haraldssyni, þjóðgarðsverði, en lögreglan á Selfossi hefur málið til meðferðar.

„Reglur og fyrirmæli um köfun í Silfru voru sett í byrjun þessa árs en í gjánni hafa orðið banaslys, síðast í lok árs 2012, og fleiri óhöpp hafa orðið þar sem skammt var milli lífs og dauða. Þjóðgarðurinn leggur áherslu á að tilvik sem þessi séu rannsökuð og að farið sé að lögum og reglum um köfun til þess að tryggja fyllsta öryggi,“ segir Ólafur ennfremur.

Er gerð krafa um að maðurinn sæti rannsókn og eftir atvikum opinberri ákæru vegna brota á lögum.

mbl.is greindi frá þessu

Fyrri greinKúnum hleypt út á Helluvaði
Næsta greinVatnið úr Ölfusinu fékk tvær gullstjörnur