Þingmenn heimsóttu HSU

Níu þingmenn Suðurkjördæmis heimsóttu Heilbrigðisstofnun Suðurlands í síðustu viku, fyrst Björgunarmiðstöðina á Selfossi og síðan áttu þeir fund með framkvæmdastjórn stofnunarinnar á Selfossi.

Í Björgunarmiðstöðinni var farið yfir fortíð, nútíð og framtíð utanspítalaþjónustu á Suðurlandi. Þingmönnum var gerð grein fyrir fjölgun útkalla í umdæminu, sem eru komin til vegna aukinna umsvifa og aukins fjölda ferðamanna. Um 10-15% aukning er í útköllum á milli ára og heildaraukningin frá árinu 2011 er 66%.

Meðal annars var farið yfir kosti þess að sjúkraþyrla yrði fengin til að þjónusta umdæmið og þá ekki síst Vestmannaeyjar sem þurfa á sérhæfðri aðstoð án tafa, þegar alvarleg veikindi eða slys verða þar.

Þingmenn komu síðan á aðalskrifstofur HSU og áttu þar fund með framkvæmdastjórn. Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU, fór yfir framvindu í rekstri stofnunarinnar síðustu 26 mánuði og þann ávinning sem náðst hefur í að snúa við rekstrarstöðu og efnahag stofnunarinnar frá sameiningu.

Á fundinum var einnig farið yfir rekstur sjúkrahúsanna í umdæminu, verkefnin framundan, tækifærin í aukinni sérhæfðri þjónustu til íbúa. Lögð var áhersla á áframhaldandi uppbyggingu og hvernig má nýta enn betur mannafla og hæfni heilbrigðisfagfólks í umdæminu til hagsbóta fyrir íbúa alla og gesti á Suðurlandi.