Þetta verður gott sumar

„Já, ég er bjartsýnn á gott sumar,“ segir Finnur Kristjánsson kaupmaður í Vesturbúð á Eyrarbakka aðspurður um horfur í verslun á Eyrarbakka. „Það er að kvikna líf.“

Finnur segist verða var við aukna umferð ferðamanna. „Ég er sannfærður um gildi Suðurstrandarvegarins enda finnum við fyrir því að hingað koma erlendir ferðamenn í auknum mæli beint af flugvellinum í Keflavík,“ segir hann.

Utan hins hefðbundna viðskiptavinar úr þorpinu segir Finnur að fjölmargir Íslendingar stoppi í Vesturbúð, ekki síst í bíltúrnum á ferð um Suðurland, svo sem um helgar. Finnur segir það skipta máli að fólk hafi fleiri viðkomustaði og er ánægður með opnun upplýsingamiðstöðvar í þorpinu, og önnur jákvæð teikn séu á lofti um frekari verslun í sumar.

Og það er líka ýmislegt hægt að fá í verslun eins og Vesturbúð. Í vetur hófu þau að selja pizzur, bakaðar á staðnum. „Já, Rizzo pizzurnar renna út. Við byrjuðum að selja þær í desember, þetta var eiginlega jólamaturinn hérna,“ segir hann kankvís. Enda tekur það ekki nema um fjórar mínútur að afgreiða pizzurnar, eldheitar og eldbakaðar úr ofninum.

Fyrri greinHamarsmenn komnir í sumarfrí
Næsta greinArnar Gunnars: „Með sorg í hjarta sem ég kveð Selfoss“