„Þetta verð er komið til að vera“

„Það var svo gaman að vera á Selfossi á laugardaginn, mikið að gera og allir svo jákvæðir og ánægðir með búðina,“ segir Olga Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri F&F á Íslandi.

F&F opnaði verslun um síðustu helgi í Larsenstræti á Selfossi þar sem Hagkaup er til húsa.

Aðspurð hvernig það hafi komið til að F&F opnaði á Selfossi segir Olga F&F vera sívaxandi merki. „Ástæðan fyrir því að við erum að opna F&F út um allt er að þetta eru vandaðar tískuvörur á verði sem er hreint ótrúlegt. F&F er í mikilli sókn um allan heim og er að opna nýjar verslanir í hverjum mánuði. Núna síðast í Þýskalandi en merkið kemur upprunalega frá Bretlandi.“

„Þar sem að F&F eru með marga hæfileikaríka hönnuði sem vinna eingöngu fyrir F&F og hafa gott eftirlit með aðstæðum þar sem varan er framleidd þá erum við stolt af að bjóða kröfuhörðum Íslendingum þessar vörur,“ segir Olga. Hún bætir því við að markmið F&F sé að bjóða upp á tískuvörur sem höfða til sem flestra og á hagstæðasta verðinu.

„Það er búið að vera virkilega gaman að segja frá því að þetta verð er komið til að vera og er ekki bara „opnunarverð“ eins og sumir halda. Við höfum fengið að heyra að viðskiptavinum finnist það komið til útlanda að versla í F&F,“ segir Olga að lokum.

Fyrri greinNýtt met í veltu
Næsta greinSluppu án meiðsla úr bílveltu