„Þetta gefur manni tilefni til að fagna“

Selfyssingurinn Guðmundur Eggertsson og fyrirtæki hans, Takumi, hlutu á dögunum tilnefningu til Norrænu nýsköpunarverðlaunanna.

„Þetta er mikil viðurkenning fyrir okkur og gaman að vita til þess að það sé tekið eftir því sem við erum að gera. Það hefur verið mikil gróska í nýsköpunarstarfsemi á Íslandi eins og annars staðar undanfarin ár og því er gaman að Takumi skuli þykja standa uppúr í því mikla og góða starfi sem er unnið hérna heima,“ segir Guðmundur í samtali við sunnlenska.is.

Nordic Startup Awards eða Norrænu nýsköpunarverðlaunin eru veitt þeim sprotum, fjárfestum og stuðningsaðilum sem þykja hafa skarað fram úr í nýsköpunargeiranum á árinu. Verðlaununum er jafnframt ætlað að efla tengsl norrænu sprotasenunnar.

Takumi, sem er app fyrir Instagram-notendur, er tilnefnt í flokknum Startup of the year eða sprotafyrirtæki ársins og Guðmundur er tilnefndur í flokknum Founder of the year eða stofnandi ársins.

Kom skemmtilega á óvart
Aðspurður hvað það þýði fyrir hann persónulega að vera tilnefndur segir Guðmundur að það sé mikil viðurkenning fyrir þá stofnendurna. „En á sama tíma þá á starfsfólkið okkar alveg jafn mikið í þessu. Við erum með frábær teymi bæði hér heima og svo í London, New York og Berlín sem láta þetta allt ganga upp.“

Guðmundur segir að tilnefningarnar hafi komið skemmtilega á óvart. „Það er oft á tíðum mjög huglægt mat hver vinnur svona verðlaun. Ég er sammála mörgum um að einu verðlaunin sem skipti máli séu veitt af markaðnum sjálfum, en á sama tíma þá koma Norrænu nýsköpunarverðlaunin með skemmtilega umgjörð um nýsköpun og hjálpa til við að gefa geiranum í heild sem og litlum fyrirtækjum eins og okkur aukna athygli.“

„Ég átti alls ekki von á því að vera tilnefndur. Okkar fókus er á aðra hluti dags daglega, en oft er gott að staldra aðeins við, horfa tilbaka og fagna því sem vel hefur gengið. Þetta gefur manni tilefni til að gera það,“ segir Guðmundur.


Ljósmynd/Takumi International Ltd.

Vinna með stærstu vörumerkjum heims
Takumi var stofnað fyrir tveimur árum og hefur vaxið ört síðan. „Við höfum séð mjög mikinn vöxt á stuttum tíma og á innan við tveimur árum erum við að vinna með þúsundum áhrifavalda og mörgum af stærstu vörumerkjum heims, t.d. Starbucks, Kelloggs, General Mills, Coca-Cola, Samsung og Disney. En það eru endalausar áskoranir sem fylgja og við höfum háleit markmið sem halda okkur vel við efnið,“ segir Guðmundur.

„Takumi er markaðstorg sem tengir saman vörumerki og áhrifavalda á samfélagsmiðlum. Áhrifavaldar, fólk með meira en 1.000 fylgjendur, með gott auga fyrir ljósmyndun eða framleiðslu myndefnis útbýr auglýsingaefni fyrir vörumerkin, deilir með sínum fylgjendum og fær greitt í staðinn. Vörumerkin fá í staðinn dreifingu og rétt á að nýta myndefnið áfram í sínu markaðsstarfi.“

Fjöldi íslenskra fyrirtækja er tilnefndur í hinum ýmsu flokkum Norrænu nýsköpunarverðlaunanna og má þar meðal annars nefna Payday, sem tilnefnt er sem sprotafyrirtæki ársins í fjármálageiranum. Framkvæmdastjóri Payday er Hrunamaðurinn Björn Hreiðar Björnsson en meirihluti starfsmanna Payday kemur úr Hrunamannahreppi.

Alls eru tilnefnd fyrirtæki og einstaklingar í tólf flokkum á Norrænu nýsköpunarverðlaunin og á hvert Norðurlandanna sína fulltrúa í keppninni. Úrslitin verða tilkynnt 1. september næstkomandi og gefst fólki kostur á að kjósa hér.

Fyrri greinSamningar undirritaðir vegna Landsmóts 2020
Næsta greinJafntefli í toppslagnum