Þetta er Selfossbúllan

Margir hafa eflaust rekið augun í skemmtilegt skraut uppi á vegg Hamborgarabúllunnar, en útibú þessa þekkta veitingastaðar opnaði á Selfossi fyrir viku.

Um er að ræða innrammaðar fimm númeraplötur sem eru merktar Skímó 1 uppí 5. Númeraplötur þessar eru eins og þær sem voru áður á bílum meðlima hljómsveitarinnar Skítamórals.

„Þetta gáfu Skítamóralsmeðlimir Harð-Rock café að gjöf,“ segir Gunnar Már Þráinsson, rekstrarstjóri búllunnar á Selfossi. „Selfoss er staður sem hefur sinn karakter og þetta er Selfossbúllan,“ segir Gunnar sem á von á því að fleiri hlutir sem tengjast tónlistarsögu Selfoss eigi eftir að enda uppi á vegg.

Gunnar segir að fyrstu dagarnir hafi gengið vonum framar og þjónustan við fólkið, sem staðurinn leggur mikið upp úr, hafi gengið vel. Hann segir að meirihluti fólks taki með sér matinn þrátt fyrir að hægt sé að borða á staðnum. Gunnar segir þá mikið muna um að fólk geti hringt inn og pantað. „Ef að þú hringir í mig og pantar þá spyr ég: Hvenær kemur þú? En segi þér ekki að koma á ákveðnum tíma,“ segir Gunnar og bætir við að fólk hafi tekið staðnum vel.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu.

Fyrri greinTómas Ellert: Konur og ungt fólk!
Næsta greinRáðherra opnaði myndasetur.is