„Þetta er mikill fjársjóður“

Egill Árni Pálsson tenórsöngvari frá Laugarási í Biskupstungum vinnur þessa dagana að útgáfu geisladisks með völdum lögum sem hann flytur þar ásamt gestum.

Um er að ræða fyrstu hljómplötu Egils Árna og verða 22 íslensk sönglög á plötunni. Egill sagði í samtali við Sunnlenska að um væri að ræða mörg af hans uppáhalds sönglögum, flestum þeirra eftir þekkta íslenska höfunda fyrri tíma.

„En þar eru líka tvö lög eftir núlifandi tónskáld, og þau hafa ekki heyrst áður opinberlega. Það eru þeir Gunnsteinn Ólafsson og Hreiðar Ingi Þorsteinsson sem semja þau lög. „Sigvaldi Kaldalóns og Árni Þorsteinsson eiga þó flest lög á plötunni, þar sem þeir eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér,“ segir Egill Árni.

Hann segir mörg laganna hafa fylgt sér í gegnum tíðina. „Jú, mikið af þessu söng ég sem nemandi í Söngskólanum, og eins og oft gerist fær maður alveg nóg á tímabili, sérstaklega ef allir eru að syngja þetta. En svo eftir að hafa sungið bara þýsk og ítölsk lög í nokkur ár, þá þyrsti mig svolítið í að nálgast þessa tónlist aftur og ég sé bara alls ekki eftir því. Þetta er svo einstakt að eiga þessa séríslensku tónlist,“ segir Egill.

Það er Kristinn Örn Kristinsson, píanóleikari sem sér um undirleik en ýmsir tónlistarmenn leggja líka sitt á vogarskálarnar, svo sem Kristinn Sigmundsson, sem syngur Sólsetursljóð Bjarna Þorsteinssonar ásamt Agli, Oddur Arnþór Jónssson sem syngur með honum Á vegamótum, auk fleiri listamanna og sex ára dóttur Egils Árna sem söng með honum í laginu Mamma ætlar að sofna.

Þessa dagana er Egill að nýta sér nútíma tækni í fjármögnun plötunnar og hefur sett af stað fjármögnunarsöfnun á karolinafund.com, þar sem hægt er að leggja fram stuðningsfé. Hann segir það ganga vel.

„Það er nú bara nýfarið af stað og gengur vel það sem af er, en það er langur tími eftir og mikið starf fyrir höndum að ná að klára þetta,“ segir hann.

Útgáfudagur er fyrirhugaður þann 26. nóvember og er útgáfunni fylgt eftir með tónleikum þann dag í Salnum í Kópavogi kl. 18.