Þekkti ekki fræga ferðalanginn

„Ég viðurkenni það, ég þekkti hann ekki, enda er hann orðinn fúlskeggjaður,” segir Benóný Jónsson á Hvolsvelli sem lýsir ævintýri sem hann lenti í dögunum þegar hann var á leið
heim úr vinnunni.

Þar segir Benóný frá því að hann hafi stoppað til að bjóða ferðalangi far á móts við Skeiðavegamótin, á leið austur. Sá var í regngalla og á reiðhjóli.

„Ég stoppaði og veitti honum far, en það var örðugt að koma reiðhjólinu fyrir. Það tókst að lokum. Við áttum gott spjall á leiðinni, þar sem ég spurði hann hvaðan hann væri og svona. Hann svaraði að hann væri frá Ameríku. Ég spurði hann hvernig honum hefði dottið í hug að koma hingað af öllum löndum. Hann svaraði að það væri vegna vinnunnar. Þá spurði ég hann hvað hann væri að gera.

Skeggjaði puttalingurinn svaraði að hann væri að leika í kvikmynd á Íslandi. Þá fór ég að segja honum frá fullt af fallegum stöðum á Íslandi og það væri skemmtilegast að skoða þá af hestbaki um hálendið. Maðurinn var mjög hrifinn af sögunum og þegar nálgaðist Hvolsvöll sagði ég að færi ekki lengra. Hann var ánægður og sagði að hann hlakkaði til að komast í hestaferð einhvern daginn, en hann yrði að komast áfram á tökustað. Þegar ég setti hann út við N1 (á Hvolsvelli), þakkaði hann fyrir sig og sagðist heita Russell Crowe,” segir Benóný í lýsingu sinni.

Í viðtali við Sunnlenska sagðist Benóný vissulega hafa brugðið nokkuð þegar hann áttaði sig á hvern hann hafði haft í bílnum með sér.

russell_crowe_noah_438x358_702040550.jpg
Russell Crowe í hlutverki sínu í myndinni Noah.