Þarf ekki að fækka í löggunni

„Þetta ætti að tryggja að ekki þurfi að fækka lögreglumönnum í héraðinu,“ segir Björgvin G. Sigurðsson um fjármagn sem úthluta á í gegnum innanríkisráðuneytið til lögreglustjóraembættanna á landsbyggðinni á næsta ári.

Um er að ræða 250 milljónir króna sem innanríkisráðuneytið úthlutar svo í samvinnu við hvert embætti fyrir sig. Upphæðin hefur verið samþykkt út úr nefnd og til þriðju umræðu um fjárlög á Alþingi.

Tilgangur fjárveitingarinnar er að koma í veg fyrir að embættin þurfi að grípa til þess að fækka lögregluþjónum og til að mæta uppsöfunuðum halla hjá einhverjum þeirra, sem orðið hefur til á undanförnum árum.

Þekkt er að fjárveitingar til embættisins á Selfossi hafa leitt til þess að þar hefur lögreglumönnum fækkað og stefndi í að stöðugildum yrði jafnvel fækkað enn meira á næsta ári ef ekki kæmi til viðbótarframlag úr ríkissjóði. „Við höfum búið okkur undir að fækka um fjóra menn. Vonandi veit þetta á gott,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður Árnesinga, í samtali við Sunnlenska.

Kjartan Þorkelsson, sýslumaður á Hvolsvelli, tekur í sama streng en lögreglan á Hvolsvelli hefur lagt áherslu á að geta hafa tvo lögreglumenn í Vík í Mýrdal og vonandi verði þetta til þess að fjöldi lögreglumanna í umdæminu haldi sér.

Fyrri greinHlaðan opnuð á Selfossi
Næsta greinEinar Már, Huldar Breiðfjörð og Bjartmar á Bókasafninu