Þarf 16 milljóna viðbótarframlag vegna tónlistarskólans

Héraðsnefnd Árnesinga þarf 16 milljóna króna viðbótarframlag á þessu ári til að standa undir rekstri Tónlistarskóla Árnesinga.

Að sögn Gunnars Þorgeirssonar, oddvita héraðsnefndarinnar, eru það sveitarfélögin sem standa undir þessu framlagi en þau leggja héraðsnefndinni til fjármuni.

Í skýrslu sem héraðsnefndin hafði til grundvallar um tónlistarskólana kemur fram að skólagjöld í tónlistarskólum hækkuðu um 4,5% í haust, en höfðu verið óbreytt í þrú ár. 524 nemendur stunda nám í skólanum í einkatímum og 210 nemendur njóta forskólakennslu innan grunnskólanna. Um 100 nemendur eru á biðlista og fjölgar stöðugt.

Tónlistarskólinn lagði fram beiðni um aukafjárveitingu vegna breyttra kjarasamninga sem var samþykkt. Að sögn Gunnars hefur að öðru leyti gengið vel að halda utan um fjárhag Héraðsnefndar en vitaskuld er það alltaf spurning um þjónustustig. Ekki eru áætlanir að skerða þjónustu safna sem falla undir nefndina.